Heilaáverkar og endurhæfing:
Endurhæfing sjónskynjunar eftir heilaáverka (TBI):
Heilaáverki (traumatic brain injury = TBI) eru af ýmsum toga og leiða til skemmdar í heila. Stundum greinast þeir ekki með þeirri rannsóknartækni sem við búum yfir í dag svo sem eftir heilahristing ( eftir t.d. íþróttaslys / bílsys...) en stundum verða áberandi skemmdir í heila t.d. við blóðtappa eða heilablæðingu.
Sjóneinkenni við heilaáverka:
- Sjónstillingarerfiðleikar hjá ungu fólki t.d. eftir að hafa fengið bolta í höfuð, hálshnykk eftir bílslys. Þá getur bæði fjær- og nærsjónin verið óskýr. Ýmist í eða úr fókus.
- Truflun í samvísun augna. Erfitt að beita augum saman við nærvinnu - sem orsakar höfuðverk, álag á augu (strain = einstaklingur finnur fyrir álagi á augu), augnþreytu eða jafnvel tvísýni við nærlit.
- Tvísýni : Er alltaf einkenni sem þarf að skoða gaumgæfilega. Útiloka þarf taugaáverka ef tvísýnin er viðvarandi en ef hún er af og til til staðar þá eru meiri líkur á það tengist skerðingu í samsjón. Þetta þarf alltaf að skoðast af fólki sem kann til verka.
- Ljósfælni: getur orsakast af ýmsum heilaáverkum m.a. heilahristing og eftir bílslys ( hálshnykk) .
- Minnkaður huglægur (cognitive) hæfileiki til að vinna úr sjónupplýsingum. Getur m.a. orsakast af heilahristingi. Þetta hefur mjög neikvæð áhrif á náms- og starfsgetu og getur truflað íþróttaiðkun.
Dæmi um minnkaðan hæfileika til að vinna úr sjónupplýsingum:
1. Sjónræn mismunun (Visual discrimination): Að sjá mun á milli tveggja líkra hluta.
2. Sjónminni (Visual memory): Halda ímynd í huganum til að reyna að muna hana betur.
3. Sjónrænt raðminni (Visual sequential memory): Svo sem að leggja á minni númer eða innkaupalista.
4. Mergðarsýn: (Visual figure ground): Finna hlut eða manneskju í mergð annarra eða tölur í hópi annarra t.d. í vinnuskjali á tölvuskjá.
- Minnkaður hraði sjónúrvinnslu og viðbragðstími (reduced visual processing speed and reaction time): Sem dæmi má taka íþróttamann sem er lengur að fást við verkefni innan sem utan vallar. Sjónúrvinnsluhraði íþróttamanns skiptir miklu máli varðandi að standa sig vel; lesa leikinn, eða hlaupið, meta hraða bolta eða fjarlægð í rá, og meta hraða og álykta áform meðspilara og mótherja.
- Skert sjónsvið: Slagsjúklingar geta misst hluta sjónsviðs vegna heilaskemmda. Allt sjónsviðið getur dottið út til hægri eða vinstri eða hluti af því. Sérstök gler, prismar, sjónþjálfun, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun getur hjálpað einstaklingum til að læra að skynja rými með öðrum hætti og upp á nýtt.
Greining er í höndum taugalækna eða heilasérfræðinga. Augnlæknar og sjónfræðingar taka að sér að meta sjón, sjónsvið og meta samsjón og sjónúrvinnsluskaða.
Meðhöndlun eftir heilaskaða ætti að vera:
Fjölþætt - einstaklingurinn þarf að læra að skynja tilveruna á nýjan hátt.
Með hjálp meðferðaraðila svo sem , sjúkraþjálfara,iðjuþjálfara, talþjálfa, og síðast en ekki síst að fara í mat til þeirra sem hafa þekkingu á samsjón, sjónúrvinnslu þ.e.a.s. sjónþjálfa. Fleiri meðferðaraðilar í endurhæfingunni geta skipt máli.